Óson eða tríoxíð er sameind mynduð úr þremur súrefnisatómum, táknuð O3. Óson myndast þegar eitt súrefnisatóm (O) rennur saman við súrefnissameind úr tveimur súrefnisatómum (O2).
O + O2 → O3
Í heiðhvolfinu myndast óson í afar miklu magni og það er það sem við köllum ósonlag. Ósonlagið er mikilvægt fyrir lífríki jarðarinnar því það dregur í sig útfjólubláa geisla sólarinnar sem geta verið skaðlegir. Þegar óson dregur í sig þessa geisla sundrast það aftur í eitt súrefnisatóm (O) og súrefnissameind úr tveimur súrefnisatómum (O2). Þannig myndast ákveðin hringrás og óson er sífellt að myndast og eyðast í heiðhvolfinu.
Þessi hringrás er eðlileg og helst í náttúrulegu jafnvægi. Seint á síðustu öld áttuðu menn sig á því að ósonlagið var farið að þynnast. Kom í ljós að losun ýmissa efna hafði áhrif á jafnvægi hringrásarinnar. Efnin valda auknu niðurbroti ósons og talið er að áhrif efnanna geti varið í langan tíma.
Ýmsar reglugerðir hafa verið lagðar fram á heimsvísu til að sporna gegn þessu vandamáli. Reglugerðirnar fela í sér að draga úr notkun og framleiðslu ósoneyðandi efna, t.d. í iðnaði. Mikilvægt er að virða þessar reglugerðir til að vernda ósonlagið og draga úr þynningu þess.
Til hamingju! Þú hefur unnið þér inn þitt fyrsta orkulauf.